Skagamenn unnu góðan 0-1 sigur á Þrótturum

01.06 2014

Skagamenn mættu í kvöld liði Þróttara á gervigrasvellinum í Laugardal og lyktaði leiknum með góðum 0-1 sigri okkar manna.

Fjölmargir Skagamenn voru mættir til þess að hvetja drengina í baráttunni í kvöld en byrjunarlið okkar manna var annars þannig skipað: Árni Snær – Sindri Snæfells, Arnór Snær, Ármann Smári, Darren Lough – Ingimar Elí, Hallur Flosa, Arnar Már G., - Eggert Kári, Jón Vilhelm og Garðar Gunnlaugs.

Leikurinn byrjaði fjörlega og átti Arnar Már strax fína marktilraun þegar rétt um mínúta var liðin af leiknum en Skagamaðurinn, Trausti Sigurbjörnsson í marki Þróttara varði vel en Trausti átti einmitt eftir að koma mikið við sögu í leiknum.

Heimamenn í liði Þróttara komust strax í kjölfarið í gott færi þegar framherji þeirra slapp í gegn en Árni Snær gerði vel í markinu og sá við honum. Þegar um stundarfjórðungar var liðinn af leiknum þá átti Ármann Smári tvær flottar skallatilraunir en Trausti markvörður Þróttar varði í bæði skiptin meistaralega.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en á 34 mín leiksins átti Eggert Kári flotta skallatilraun sem var fór rétt framhjá markinu. Það var síðan einungis mínútu síðar sem leikmaður Þróttar fékk réttilega dæmt rauða spjaldið eftir harkalega tæklingu á Darren Lough vinstri bakverði Skagaliðsins. Þeir gulklæddu nýttu sér liðsmuninn stuttu síðar en þá skoraði Jón Vilhelm Ákason laglegt mark beint úr aukaspyrnu og staðan orðin 0-1 fyrir Skagamenn.

Skagaliðið var nálægt því að bæta í forystunni rétt fyrir leikhlé en Trausti varði enn og aftur frábæran skalla frá Arnari Má en þar við sat í hálfleik og staðan 0-1 fyrir Skagaliðið.

Þrátt fyrir að vera talsvert meira með boltann í byrjun síðari hálfleiks þá gekk Skagaliðinu erfiðlega að skapa sér teljandi marktækifæri þrátt fyrir liðsmuninn og fengu Þróttarar í rauninni fyrsta alvöru færi hálfleiksins á 52 min leiksins. Þá tóku þeir aukaspyrnu fyrir utan teig sem Árni Snær varði, leikmaður Þróttar hirti frákastið og lét Árna verja frá sér aftur í dauðafæri á markteig. Heimamenn í Þrótti lágu þéttir til baka eftir þetta og freistuðu þess að beita skyndisóknum á meðan Skagaliðið var eins og fyrr segir meira með boltann.

Þegar um stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik áttu Skagamenn góða sókn þar sem Jón Vilhelm átti frábæra sendingu fyrir markið þar sem Hallur Flosason var mættur og náði hörkuskalla sem Trausti varði meistaralega í marki heimamanna.

Gunnlaugur Jónsson þjálfari Skagamanna gerði tvær breytingar á sínu liði nokkrum mínútum síðar en þá komu þeir Hjörtur Hjartarson og Ólafur Valur Valdimarsson inn á fyrir þá Eggert Kára og Ingimar Elí Hlynsson en Ingimar var að leika sinn fyrsta leik fyrir ÍA í sumar og er það ánægjuefni.

Skagamenn voru líklegri til að bæta við marki þegar hér var komið við sögu og fóru að þjarma að marki heimamanna en sem fyrr þá var það Trausti sem bjargaði í marki Þróttara. En fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan sanngjarn 0-1 sigur okkar manna sterku liði Þróttara.

Næsti leikur Skagamann verður gegn liði HK á Norðurálsvellinum þann 6 júní næstkomandi og mun hann hefjast kl. 19.15.

 

Viðtal við Gulla þjálfara á fotbolti.net má sjá á eftirfarandi link: http://fotbolti.net/news/01-06-2014/gulli-jons-gridarlega-anaegdur-med-thennan-leik

Viðtal við Jón Vilhelm markaskorara Skagamann í leiknum má sjá einnig á eftirfaradi link: http://fotbolti.net/news/01-06-2014/jon-vilhelm-thetta-var-typiskt-frank-lampard-mark

Til baka