Skagamenn unnu góðan sigur á Breiðablik í dag

25.09 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í dag við Breiðablik í 21. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda eftir brösótt gengi upp á síðkastið. Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti en Breiðablik var heldur sterkari aðilinn. Þeir sköpuðu sér ágæt marktækifæri sem strönduðu á góðri vörn íA og í tvígang á markrammanum en þá áttu þeir skot í þverslána.

 

Skagamenn voru frekar til baka framan af leik og beittu skyndisóknum. Þeir áttu nokkur hálffæri í hálfleiknum en þær ógnuðu ekki marki gestanna að miklu leyti. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var því 0-0.


Seinni hálfleikur hófst svo svipað og fyrri hálfleikur endaði. Breiðablik sótti af miklum krafti og Skagamenn bökkuðu mikið og beittu skyndisóknum. Það reyndi umtalsvert á vörn ÍA í seinni hálfleik þar sem blikar gerðu allt sem þeir gátu til að komast yfir en náðu aldrei að brjóta sterka vörn okkar niður þar sem Hafþór Pétursson og Gylfi Veigar Gylfason stóðu fyrir sínu.

 

ÍA komst svo yfir á 57. mínútu þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson tók hornspyrnu sem fór inn í vítateig Breiðabliks þar sem Guðmundur Böðvar Guðjónsson fékk boltann og hamraði hann í þaknetið. Glæsilegt mark og fyrsta mark hans fyrir Skagamenn í rúm sex ár eða síðan tímabilið 2010.

 

Breiðablik hélt svo áfram að sækja grimmt en vörn ÍA og Árni Snær Ólafsson í markinu áttu góðan leik og héldu hreinu. Skagamenn beittu skyndisóknum og fengu ágæt færi sem ekki náðist að nýta. Stefán Teitur Þórðarson var óheppinn að skora ekki sitt fyrsta mark fyrir ÍA þegar hann átti bylmingsskot í þverslána.

 

Skagamenn telfdu fram frekar ungu liði í dag þar sem liðsheildin var öflug og menn börðust fyrir hvorn annan. Strákarnir ætluðu að skila þremur stigum í hús og það tókst að lokum. Leikurinn endaði 1-0 fyrir ÍA þar sem mikinn vinnusigur var að ræða. Með sigrinum náði ÍA svo að bæta árangur sinn í efstu deild frá því í fyrra þegar við fengum 29 stig en núna erum við komnir með 31 stig og einn leikur er eftir.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Hafþór, Gylfi Veigar og Hallur. Á miðjunni voru Albert, Guðmundur Böðvar, Ólafur Valur og Þórður Þorsteinn. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Iain James, Steinar og Stefán Teitur.
 

Síðasti leikur tímabilsins er svo gegn Val á Valsvelli laugardaginn 1. október kl. 14:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn

Til baka