Skagamenn unnu góðan sigur á Fjölni

12.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Fjölni á Norðurálsvellinum en þetta var fyrsti heimaleikur ÍA á tímabilinu. Strákarnir ætluðu að ná sigri í kvöld eftir tvö töp í röð og byrjuðu af krafti frá fyrstu mínútu. Það skilaði marki strax á 17. mínútu en þá skoraði Garðar Gunnlaugsson af stuttu færi eftir mikla þvögu í vítateig Fjölnis. Eftir markið hélt ÍA áfram að sækja en náði ekki að skapa sér mjög hættuleg færi. Fjölnismenn áttu í erfiðleikum með að brjóta niður varnarleik ÍA og sóknarlotur þeirra voru frekar bitlausar. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik var meira jafnræði með liðunum framan af. Fjölnismenn voru meira með boltann og reyndu að jafna metin en náðu spjaldan að skapa sér markverð færi. Ef hætta skapaðist náði vörn ÍA og Árni Snær Ólafsson ávallt að skerast í leikinn og bjarga málunum. Skagamenn beittu svo skyndisóknum þegar tækifæri gafst en náðu ekki að ógna marki gestanna mikið. Undir lok leiksins var svo mikill hasar þegar ÍA fékk tvö góð færi til að klára leikinn en misnotuðu þau og Fjölnismenn voru nálægt því að jafna metin þegar sóknarmaður þeirra náði skalla sem Árni Snær Ólafsson varði út við stöng. Leikurinn endaði því að lokum með 1-0 sigri ÍA og þrjú mikilvæg stig í hús.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Albert, Arnar Már og Martin. Í sókninni voru Garðar, Eggert Kári og Steinar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Jón Vilhelm Gylfi Veigar og Aron Ingi sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir ÍA í efstu deild.
 

Næsti leikur er svo gegn Víking Ólafsvík á Ólafsvíkurvelli mánudaginn 16. maí kl. 20:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn eftir mikilvægan sigur í kvöld.

Meðfylgjandi mynd er af hinum 18 ára gamla vinstri bakverði Aroni Inga Kristinssyni sem spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í gær! 

Til baka