Skagamenn unnu öruggan sigur á Víking R

28.08 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Víking R á Norðurálsvelli í 17. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda til að koma sér í baráttu um Evrópusæti. ÍA byrjaði af miklum krafti í leiknum og strax á 4. mínútu skoraði Garðar Gunnlaugsson með föstum skalla eftir frábæra fyrirgjöf frá Þórði Þorsteini Þórðarsyni.

 

Eftir þessa góðu byrjun bökkuðu Skagamenn aðeins og beittu eitruðum skyndisóknum. Víkingar náðu sáralítið að ógna marki ÍA og sóknir þeirra voru aldrei hættulegar. Skagamenn áttu aftur á móti mjög góðar sóknir og úr einni slíkri á 33. mínútu skoraði Tryggvi Hrafn Haraldsson sitt fyrsta mark í efstu deild með þrumuskoti eftir sendingu frá Garðari Gunnlaugssyni. ÍA fékk nokkur álitleg færi eftir mörkin en náði ekki að nýta þau. Staðan í hálfleik var því 2-0.

Seinni hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Baráttan var í fyrirrúmi og stundum var það á kostnað fótboltans en bæði lið ætluðu sér stóra hluti í leiknum í dag. Skagamenn voru þó sterkari og eftir því sem leið á hálfleikinn tóku þeir leikinn að miklu leyti yfir. Víkingar áttu nokkur hálffæri framan af hálfleiknum en náðu aldrei að ógna sterkri vörn ÍA að miklu leyti.

 

ÍA fékk nokkur álitleg færi til að bæta við mörkum en náðu ekki að nýta þau þrátt fyrir ágætar tilraunir. Víkingar reyndu mikið að minnka muninn undir lok leiksins og fengu nokkur góð marktækifæri en nýttu þau ekki. Í raun var það of seint hjá þeim þegar þeir hófu atlögu sína að marki ÍA.

 

Skagamenn börðust sem ein liðsheild í dag og var sérstaklega gaman að sjá Guðmund Böðvar Guðjónsson spila, sem stjórnaði miðjunni eins og herforingi. ÍA skilaði þremur stigum í hús því leikurinn endaði 2-0 og frekar öruggur sigur var niðurstaðan. 


Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Gylfi Veigar, Ármann og Hallur. Á miðjunni voru Guðmundur Böðvar, Albert, Arnar Már og Þórður Þorsteinn. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Arnór, Andri Geir og Eggert Kári.

 

Næsti leikur er svo gegn Þrótti á Þróttarvelli sunnudaginn 11. september kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka