Skagamenn unnu öruggan sigur í Vesturlandsslagnum

15.08 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Víking Ólafsvík á Norðurálsvelli í 15. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda eftir tvo tapleiki í röð. Nokkurt jafnræði var milli liðanna framan af leik og voru þau að reyna að skapa sér markverð færi. Nokkur álitleg færi litu dagsins ljós hjá ÍA en það var ekki fyrr en á 36. mínútu þegar Þórður Þorsteinn Þórðarson skoraði með frábæru skoti í stöngina og inn utarlega í vítateignum. Fátt markvert gerðist eftir það og staðan í hálfleik var 1-0.

 

Gestirnir komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og ætluðu að gefa sig alla í leikinn. Þeir sóttu mun meira en í fyrri hálfleik en áttu í erfiðleikum með að skapa sér góð færi. Skagamenn bökkuðu aðeins í seinni hálfleik og beittu skyndisóknum sem sköpuðu mikinn usla í vörn Víkinga. Gestirnir frá Ólafsvík fengu nokkur hálffæri en náðu aldrei að brjóta niður sterka vörn ÍA.

 

Það var svo um miðjan seinni hálfleik sem Skagamenn bættu öðru marki við. Þá gaf Tryggvi Hrafn Haraldsson boltann inn í vítateig Víkinga þar sem Garðar Gunnlaugsson fékk boltann, lék á markvörð Víkinga og skoraði af öryggi. Tryggvi Hrafn, sem hafði komið inn á í seinni hálfleik, hélt svo áfram að hrella varnarmenn gestanna með góðum sóknarleik. Hann lagði svo upp þriðja mark ÍA á 85. mínútu þegar hann gaf boltann inn í vítateig þar sem Arnar Már Guðjónsson skoraði með fallegum skalla.


Skagamenn náðu svo að skapa sér nokkur færi sem ekki náðist að nýta. Baráttan var í algleymingi í þessum leik og ætluðu okkar menn að skila þremur stigum í hús sem gerðist að lokum. Leikurinn endaði því með 3-0 sigri ÍA þar sem liðsheildin skóp þennan mikilvæga sigur.


Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Gylfi Veigar, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Guðmundur Böðvar og Arnar Már. Í sókninni voru Ólafur Valur, Þórður Þorsteinn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Tryggvi Hrafn, Albert og Stefán Teitur.


Næsti leikur er svo gegn Fylki á Fylkisvelli mánudaginn 22. ágúst kl. 18:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka