Skagamenn unnu sinn fimmta leik í röð

24.07 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við ÍBV á Norðurálsvelli í 12. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda til að halda áfram góðu gengi eftir fjóra sigurleiki í röð. Nokkurt jafnræði var milli liðanna framan af leik og voru þau að reyna að skapa sér markverð færi. Það var svo á 17. mínútu sem Garðar Gunnlaugsson tók leikinn í sínar hendur þegar hann skoraði með bylmingsskoti af 25 metra færi í þverslána og inn. Stórkostlegt mark og Eyjamenn máttu sín lítils. ÍA hélt svo áfram að sækja af krafti og skapaði sér nokkur góð færi.

 

Á 33. mínútu kom svo annað mark okkar manna þegar Ármann Smári Björnsson átti skalla sem var bjargað á marklínu. Jón Vilhelm Ákason fékk boltann á kantinum og átti fyrirgjöf fyrir mark ÍBV þar Sem Ármann Smári skoraði með föstum skalla. Eyjamenn náðu ekki að skapa sér mörg færi í hálfleiknum og voru frekar bitlausir í sóknarleiknum. Staðan í hálfleik var því 2-0.


Gestirnir komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og ætluðu að gefa sig alla í leikinn. Þeir sóttu mun meira en í fyrri hálfleik en áttu í erfiðleikum með að skapa sér dauðafæri. Skagamenn bökkuðu nokkuð í seinni hálfleik og beittu skyndisóknum sem sköpuðu nokkurn usla í vörn ÍBV. Eyjamenn fengu nokkur hálffæri en náðu aldrei að brjóta niður sterka vörn ÍA.

 

Á 75. mínútu var Darren Lough rekinn af velli fyrir sitt annað gula spjald þegar hann átti að hafa fellt sóknarmann ÍBV en náði fyrst til boltans. Furðuleg ákvörðun hjá dómara leiksins sem oft virtist eiga erfitt með að höndla leikinn. Skagamenn urðu að þétta vörnina enn betur eftir þennan dóm.


Skagamenn náðu að skapa sér nokkur álitleg færi sem ekki náðist að nýta. Baráttan var í algleymingi í þessum leik og ætluðu okkar menn að skila þremur stigum í hús sem gerðist að lokum. Leikurinn endaði því með 2-0 sigri ÍA þar sem um var að ræða baráttusigur þar sem sterk liðsheild var lykilþátturinn.

 

Með sigrinum í kvöld heldur ÍA áfram á sigurbraut og þetta er í fyrsta sinn síðan 2003 sem við vinnum fimm leiki í röð í efstu deild karla. Garðar skoraði sitt 38 mark fyrir ÍA í efstu deild og er orðinn níundi markahæsti leikmaður ÍA í efstu deild í sögunni. Er hann farinn að nálgast markahrókana Pétur Pétursson og Arnar Gunnlaugsson.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Arnar Már, Ólafur Valur og Jón Vilhelm. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Steinar, Albert og Gylfi Veigar.
 

Næsti leikur er svo gegn FH á Norðurálsvelli miðvikudaginn 3. ágúst kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka