Skagamenn úr leik í Lengjubikarnum

19.04 2015

Skagamenn mættu KA á gervigrasvellinum á KA-svæðinu fyrr í dag og var staðan 1-1 að loknum venjulegum leiktíma en KA-menn höfðu að lokum betur eftir vítaspyrnukeppni.


Leikurinn fór fram við erfiðar aðstæður en stífur vindur gerði leikmönnum erfitt fyrir. Það var Jón Vilhelm Ákason sem náði forystunni fyrir Skagaliðið með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 27 mín leiksins en þar við sat í hálfleik og staðan 0-1.
Í síðari hálfleik tókst KA-mönnum að jafna eftir sjálfmark hjá Skagaliðinu en þá var tæpur stundarfjórðungur eftir af leiknum. Skagaliðið sótti stíft að marki heimamanna síðustu mínútur leiksins en það dugði ekki. Staðan var því 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og viðtók vítaspyrnukeppni þar sem KA-liðið reyndist sterkara.


Þátttöku Skagamanna er því lokið í Lengjubikarnum en liðið náði samt sem áður fínum árangri í keppninni þetta árið og endaði á því að vinna 7 af 9 leikjum sínum í mótinu með markatölunni 24-15.
Nú er bara að byggja ofan á þessa frammistöðu en einungis tvær vikur eru í fyrsta leik í Pepsi-deildinni.

Til baka