ÍA vann frábæran útisigur á Breiðablik

11.07 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Breiðablik á Kópavogsvelli í tíundu umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn þurftu á þremur stigum að halda í fallbaráttunni og til að halda áfram góðu gengi eftir tvo sigurleiki í röð. Þeir byrjuðu leikinn líka af krafti og á 11. mínútu skoraði Garðar Gunnlaugsson með frábærum skalla eftir aukaspyrnu frá Iain James Williamson. Breiðablik komst svo mun meira í leikinn og fékk nokkrar álitlegar sóknir sem þeir náðu ekki að klára. ÍA fékk nokkur hálffæri það sem eftir lifði hálfleiksins en þær ógnuðu vörn blika ekki mikið. Baráttan var líka í fyrirrúmi og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var því 0-1.

 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og fyrri hálfleikur endaði. Breiðablik sótti af miklum krafti og Skagamenn bökkuðu mikið og beittu skyndisóknum. Það reyndi umtalsvert á vörn ÍA í seinni hálfleik þar sem heimamenn gerðu allt sem þeir gátu til að jafna metin en náðu aldrei að brjóta sterka vörn okkar niður þar sem Ármann Smári Björnsson var í fararbroddi. Skagamenn fengu nokkur ágæt færi sem ekki náðist að nýta. Baráttan var í algleymingi í þessum leik og ætluðu okkar menn að skila þremur stigum í hús sem gerðist að lokum. Leikurinn endaði því með 0-1 sigri ÍA þar sem um var að ræða hreinan iðnaðarsigur og liðsheildin stóð upp úr.

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Darren, Ármann Smári, Arnór Snær og Hallur. Á miðjunni voru Iain James, Arnar Már, Ólafur Valur og Jón Vilhelm. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Albert, Eggert Kári og Ásgeir. 

 

Næsti leikur er svo gegn Val á Norðurálsvelli sunnudaginn 17. júlí kl. 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka