Skagastelpur unnu frábæran sigur á Þrótti R

15.04 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld við Þrótt R í Lengjubikarnum í Akraneshöll. Þetta var fjórði leikur ÍA í B riðli mótsins. Töluvert jafnræði var framan af í fyrri hálfleik og fengu bæði lið nokkur ágæt hálffæri sem ekki tókst að nýta. Skagastelpur komust svo yfir um miðjan fyrri hálfleik þegar Gréta Stefánsdóttir skoraði gott mark. Þróttarar komu þó fljótt til baka og jöfnuðu metin skömmu síðar. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

 

Seinni hálfleikur var svo eign ÍA frá fyrstu mínútu. Stelpurnar komu mjög ákveðnar til leiks eftir hálfleiksræðu Þórðar Þórðarsonar þjálfara og það skilaði sér fljótt þegar Maren Leósdóttir skoraði með góðu skoti. Um miðjan hálfleikinn bætti Maren svo sínu öðru marki við og ÍA komið í 3-1. Þróttarar máttu sín lítils og ógnuðu marki ÍA sjaldan. Skagastelpur fengu svo fleiri góð marktækifæri sem ekki nýttust en undir lok leiksins kláraði Aldís Ylfa Heimisdóttir leikinn með tveimur mörkum. Leikurinn endaði því með frábærum 5-1 sigri ÍA og liðið allt átti frábæran leik í kvöld. Stelpurnar eru nú komnar með sjö stig í Lengjubikarnum og eru í efsta sæti í riðlinum.

Til baka