Skagastelpur unnu sigur á Aftureldingu

03.04 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði í gær við Aftureldingu í Lengjubikarnum í Akraneshöll. Þetta var þriðji leikur beggja liða í B riðli mótsins. Töluverð barátta var í fyrri hálfleik og tók það leikmenn beggja liða nokkurn tíma að komast í takt við leikinn. Nokkur álitleg marktækifæri litu dagsins ljós og það skilaði marki á 28. mínútu þegar Jaclyn Pourcel skoraði gott mark fyrir ÍA. Afturelding náði ekki að ógna marki Skagastelpna mikið eftir það og staðan því 1-0 fyrir ÍA í hálfleik.
 

Seinni hálfleikur hófst af krafti og Skagastelpur ætluðu sér ekkert annað en bæta við forystu sína í leiknum. Það gekk eftir á 53. mínútu leiksins þegar Megan Dunnigan skoraði með góðu skoti. Eftir markið héldu stelpurnar áfram að sækja og náðu oft að skapa sér ágæt færi sem nýttust ekki. Gestirnir reyndu að komast betur í takt við leikinn en náðu lítið að brjóta niður sterka vörn ÍA. Leikurinn endaði því með góðum 2-0 sigri ÍA og stelpurnar eru komnar með fjögur stig í Lengjubikarnum.

Til baka