Skagastelpur unnu góðan útisigur á Selfoss

17.08 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Selfoss í kvöld í 12. umferð Pepsi-deildarinnar. Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á sjöttu mínútu kom frábært mark þegar Cathrine Dyngvold skoraði með góðu skoti. ÍA hélt svo áfram að sækja og skapaði nokkur góð færi.

 

Á 20. mínútu kom annað mark Skagamanna þegar Megan Dunnigan skoraði með skalla eftir stoðsendingu frá Anítu Sól Ágústsdóttur. Selfoss komst svo betur inn í leikinn og náði að minnka muninn á 27. mínútu með góðu marki. Eftir þetta var nokkurt jafnræði með liðunum og hvorugt liðið skapaði sér mjög hættuleg færi. Staðan í hálfleik var því 1-2 fyrir ÍA.
 

Í seinni hálfleik var svo áfram mikil barátta í gangi þar sem Skagamenn sóttu nokkuð án þess að skapa umtalsverð færi en Selfoss átti í mesta basli með að skapa sér álitleg færi gegn sterkri vörn ÍA. Stelpurnar ætluðu sér sigur í kvöld og því skiluðu þær með þrautseigju og sterkri liðsheild.

 

Selfoss gerði allt til að jafna metin en náði aldrei að brjóta niður varnarmúr ÍA. Leikurinn endaði því með frábærum 1-2 útisigri ÍA og nú er allt opið í fallbaráttunni í deildinni.

Næsti leikur er gegn Fylki á Norðurálsvellinum sem fer fram miðvikudaginn 24. ágúst kl.18:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka