Skagastúlkur töpuðu óverðskuldað gegn Selfossi

15.08 2014

Stelpurnar mættu Selfossi á Norðurálsvellinum í kvöld í 13. umferð Pepsideildar kvenna í gærkvöldi.  Leiknum lauk með 0-1 sigri Selfoss sem skoraði sigurmarkið úr vægast sagt umdeildri vítaspyrnu.

Leikurinn hófst með mikilli baráttu á báða bóga, liðin skiptust á að sækja á víxl án þess þó að skapa sér teljandi færi í fyrri hálfleik.  Síðari hálfleikur byrjaði með látum og vildu Skagastúlkur fá víti á 50.mín þegar einn leikmaður Selfoss handlék boltann eftir fyrirgjöf, en ekkert var dæmt.  Á 54. mín kom vendipunktur leiksins þegar slakur dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu á Skagastúlkur þegar boltanum var potað í hönd varnarmanns af mjög stuttu færi.  Mjög svo umdeildur dómur og Selfoss skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnunni, þó Ásta í markinu hafi verið nálægt því að verja.  Þórður þjálfari mótmælti vítaspyrnunni kröftuglega við dómara leiksins og var í kjölfarið sendur uppí palla.  Síðasta hálftímann sóttu okkar stelpur í sig veðrið án þess þó að skapa sér nógu góð færi til að skora úr.  Leikurinn fjaraði því út og endaði eins og áður sagði með 0-1 sigri Selfoss í jöfnum leik.

Þetta er annar leikurinn í röð sem liðið á virkilega skilið að fá stig úr leiknum en gengur af velli vonsvikið með dómgæsluna.

Næsti leikur liðsins er þriðjudaginn 26. ágúst gegn Þór á Akureyri.

Sjá viðtal við Þórð þjálfara hér: http://fotbolti.net/news/14-08-2014/thordur-thordar-hlaegilegt-ad-vitadomurinn-hafi-radid-urslitum

og nánari umfjöllun um leikinn á fótbolti.net hér: http://fotbolti.net/game.php?action=view_article&id=1311

Til baka