Skagamenn komnir aftur í deild þeirra bestu

04.09 2014

Skagamenn tryggðu sér í kvöld sæti í deild þeirra bestu með öruggum 0-2 sigri á liði KV-manna. Leikurinn fór rólega af stað og lítið var um opin marktækifæri framan af fyrri hálfleik. Eftir 35 mín leik fengu Skagamenn réttilega dæmda aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig. Spyrnuna tók Jón Vilhelm Ákason og skoraði hann glæsilegt mark beint í fjærhornið og staðan orðin 0-1 fyrir þá gulklæddu.

Skagamenn bættu í forystuna einungis mínútu síðar en þá átti Darren Lough frábæra fyrirgjöf fyrir mark heimamanna sem Garðar Gunnlaugsson skallaði laglega í netið. Staðan orðin 0-2 og þar við sat í hálfleik.

Þeir gulklæddu höfðu áfram undirtökin í síðari hálfleik og fékk Hjörtur Hjartarson ákjósanlegt tækifæri til að bæta við marki fyrir Skaganna eftir fínan undirbúning frá Halli Flosasyni, en varnarmaður KV gerði vel í að fleygja sér fyrir skot Hjartar. KV menn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en tókst aldrei að ógna marki gestanna að neinu ráði og má segja að leikurinn hafi smám saman fjarað út og niðurstaðan því sannfærandi 0-2 sigur Skagamanna.

Sigur Skagamanna var aldrei í hættu í kvöld en þeir gulklæddu voru afar vel studdir af fjölmörgum Akurnesingum sem mættu í Laugardalinn. Með sigrinum er sæti í efstu deild tryggt að ári en heimasíða KFÍA óskar öllum Skagamönnum, leikmönnum og þjálfurum ÍA innilega til hamingju með áfangann.

Allt Skagaliðið og þjálfarar þess, Gunnlaugur Jónsson og Jón Þór Hauksson eiga hrós skilið fyrir árangurinn í sumar. Eftir að hafa lent í áföllum í byrjun móts og einnig um miðbik tímabils þá hefur liðið alltaf komið til baka og sýnt mikinn karakter. Liðið hefur á löngum köflum spilað flottan bolta í sumar og skorað langflest mörk í deildinni og því er sætið í efstu deild að ári fyllilega verðskuldað.

Eftir eru tveir leikir í 1. deild karla, fyrst gegn Haukum á Norðurálsvelli og svo norðan heiða gegn liði KA en Skaginn á ennþá möguleika á efsta sæti deildarinnar og munu drengirnir án ef setja markið þangað.

Til baka