Skaginn mætir Fjölni í Lengjubikarnum

14.04 2015

Skagamenn eru í óða önn að undirbúa sig fyrir átökin í Pepsi-deildinni sem hefjast 3. maí næstkomandi. Liður í undirbúningnum var æfingaferð sem farin var til Danmerkur um nýliðna helgi. Við tókum púlsinn á þjálfara liðsins Gunnlaugi Jónssyni eftir æfingaferðina og fengum hann til þess að segja okkur örlítið frá reisunni:

“Við skelltum okkur í æfingaferð til Danmerkur um síðustu helgi og tókst hún mjög vel, hún var styttri en þær ferðir sem íslensk lið eru vanalega að fara. Við fórum út á fimmtudegi og komum tilbaka á miðnætti sunnudag.  Veðrið lék við okkur og aðstaðan var til fyrirmyndar og fengum við frábærar móttökur hjá FC Nordsjælland þar sem Ólafur Kristjánsson ræður ríkjum. Við sáum svo leik með Nordsjælland liðinu gegn öðru Íslendingaliði OB þannig að það var gaman að fá innsýn inn í undirbúning liðsins fyrir leikinn og framkvæmd leiksins og ljóst að við getum lært ýmsilegt af frændum okkar.”

Skagamenn mæta liði Fjölnis í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins á fimmtudaginn næstkomandi. Leikurinn mun fara fram í Akraneshöllinni og hefst hann kl 18.00 en Gulli er bjartsýnn fyrir leikinn:  

“Leikurinn gegn Fjölni leggst vel í okkur, nú er að styttast í alvaran byrji og gott að fá sem flesta alvöru leiki fram að móti. Fjölnir er eitt af liðunum sem við munum mæta í sumar þannig að það er alveg ljóst að við fáum hörku andstæðing í 8 liða úrslitum, þeir hafa styrkt sig vel í vetur og okkur hlakkar til að mæta þeim í Akraneshöllinni á fimmtudag.” sagði Gulli að lokum í stuttu samtali við vefsíðu félagsins.

Við hvetjum Skagamenn til þess að fjölmenna á leikinn og styðja strákanna til sigurs.

Til baka