Skaginn mætir KA í lokaleik tímabilsins

19.09 2014

Laugardaginn 20. september fer fram síðasta umferðin í 1. deild karla en þá mæta Skagamenn liði KA-manna norðan heiða og hefst leikurinn kl. 14.00. Eins og flestum er kunnugt um þá hefur Skagaliðið nú þegar tryggt sæti sitt í deild þeirra bestu fyrir næsta tímabil en liðið á ennþá möguleika á að ná efsta sæti deildarinnar en þá verða þeir gulklæddu að vinna sinn leik fyrir norðan og treysta á að Tindastóll leggi Leikni R. að velli í Breiðholtinu.

 

Skagaliðið fékk dauðafæri á að ná efsta sæti deildarinnar í síðustu umferð þegar þeir mættu liði Hauka á heimavelli en með sigri í þeim leik hefði liðið tyllt sér á toppinn. Því miður hittu drengirnir okkar á slakan dag og náði liðið sér aldrei almennilega á strik í leiknum. Við heyrðum í vinstri bakverði liðsins, Darren Lough en hann þekkir vel til KA-manna eftir að hafa leikið með þeim í tvö tímabil áður en hann gekk í raðir Skagamanna. Við byrjuðum á að ræða síðasta leik gegn Haukum: „Það var grátlegt að nýta það tækifæri ekki víst að úrslit úr leik Leiknis-manna gegn HK voru okkur hagstæð. En því miður þá náðum við okkur aldrei almennilega í gang í þessum leik. En það þýðir ekkert að gráta það mikið lengur. Æfingar hafa gengið vel hjá okkur í vikunni og við erum staðráðnir í að ná góðum úrslitum fyrir norðan.“

 

Aðspurður hvernig sér litist á leikinn gegn sínum gömlu félögum: „Það verður hörkuleikur og á meðan við eigum ennþá séns á efsta sætinu þá að sjálfsögðu förum við í þennan leik með því hugarfari að taka þrjú stig. Við töpuðum ílla fyrir þeim í sumar en þeir hittu á góðan leik og unnu okkur sannfærandi 2-4 á okkar heimavelli. KA-liðið er öflugt, vel mannað og með fullt af hæfileikaríkum leikmönnum innanborðs. Við stefnum á að rétta okkar hlut og enda mótið á jákvæðum nótum með því að sækja sigur gegn KA.“

 

Darren hefur verið einn jafnbesti leikmaður Skagaliðsins í sumar, verið traustur varnarlega og einnig lagt upp fjölda marka með fyrirgjöfum sínum. „Já mér hefur vegnað vel með liðinu í sumar. Ég hef verið heppinn að því leytinu til að vera laus við öll meiðsli og því getað tekið þátt í öllum leikjum liðsins á tímabilinu. Ég hef nýtt tímann vel milli leikja og verið duglegur að vinna í líkamlegan styrk með hjálp Rúnu einkaþjálfara.“

 

Bakvörðurinn öflugi er uppalinn í Newcastle á Englandi en fjölskylda hans heimsótti hann í sumar til Íslands: „Foreldrar mínir og kærasta heimsóttu mig í sumar en þeim fannst mjög gaman að koma til landsins. Ég stefni á að fara út til Englands í næstu viku að tímabili loknu og dvelja hjá mínu fólki þangað til ég kem aftur á Akranes síðar í vetur.“

 

Aðspurður hvort hann sé eitthvað farinn að leiða hugann að Pepsi-deildinni á næsta tímabili: „Já ég neita því ekki. Það verður virkilega spennandi að fá að reyna sig við þá bestu og hlakka ég til þess að takast á við það verkefni með Skagaliðinu. En fyrst og fremst þá er ég að einblína á síðasta leikinn á tímabilinu gegn KA. Það er mikilvægt að enda tímabilið á jákvæðum nótum og við stefnum á sigur fyrir norðan.“ sagði Darren Lough í samtali við vefsíðu KFÍA

Til baka