Skaginn mætir KV í Laugardalnum í dag kl. 18.00

04.09 2014

Í dag fer fram 20. umferð 1. deildar karla en þá mæta Skagamenn liði KV á gervigrasvellinum í Laugardal og hefst leikurinn kl. 18.00. Þrjú stig í dag gætu reynst báðum liðum afar mikilvæg en Skagaliðið dugar sigur ti þess að tryggja sæti sitt í efstu deild að ári á meðan KV-menn þurfa  nauðsynlega á stigunum að halda á hinum enda deildarinnar.

Það er óhætt að segja að KV-liðið sé sýnd veiði en ekki gefin fyrir okkar drengi en Vesturbæjaraliðið mætti afar skipulagt til leiks í fyrri leik liðanna í sumar og vann Skagaliðið 0-1 á Norðurálsvellinum. Í síðustu umferð lögðu Skagamenn lið BÍ/Bolungarvíkur 1-0 á heimavelli á meðan KV-menn þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Selfyssingum, 3-1.

Við heyrðum í þjálfara Skagamanna, Gunnlaugi Jónssyni nú á leikdegi en hann hafði þetta að segja um sigurleikinn gegn Djúpmönnum: "Sigurinn var mjög sætur gegn BÍ/Bolungarvík en ég var ósáttur með spilamennskuna, við áttum að leggja meira á okkur í þessum leik og það munaði mjóu að okkur yrði refsað undir lokin en stigin þrjú voru okkar undir lokin sem var mikilvægast."

Framundan er leikur gegn liði KV. Það er óhætt að segja að mikið sé undir í komandi viðurreign en með sigri getu Skagaliðið tryggt sér sæti í deild þeirra bestu að ári. Hvernig lýst þér á leikinn og hvernig heldurðu að það verði að mótivera liðið fyrir komandi viðurreign?

"Mér lýst mjög vel á KV leikinn og það er mikið undir í þeim leik, það eitt að geta tryggt okkur efstu deilar sæti er nóg hvatning til að koma liðinu upp á tærnar og taka þessi þrjú stig sem eru í boði. Við megum heldur ekki gleyma að KV kom í heimsókn til okkar fyrr í sumar og hirti öll stigin í þeim leik þar sem við vorum einfaldlega ekki klárir í slaginn og það verður okkur víti til varnaðar. KV er að berjast fyrir lífi sínu og ég get lofað að þeir munu gera allt til að halda líflínu í þessari deild. Við erum vel gíraðir og mætum í Laugardalinn til að vinna KV og trygga félaginu Pepsi-deildar sæti að ári." sagði Gunnlaugur Jónsson þjálfari ÍA í samtali við vefsíðu félagsins.

Við minnum enn og aftur á leikinn sem hefst kl. 18.00 og hvetjum Skagamenn til þess að fjölmenna á völlinn og styðja strákanna á lokametrunum.

Til baka