Sorglegt tap gegn Þrótti

05.06 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Þrótt R í sjöundu umferð Pepsi-deildarinnar. Þróttarar byrjuðu af meiri krafti en náðu lítið að skapa sér gegn sterkri vörn ÍA. Skagamenn sóttu meira eftir því sem leið á hálfleikinn og fengu nokkur ágæt færi en náðu ekki að koma boltanum í netið. Heilt yfir var spilamennska beggja liða ekkert sérstaklega góð og staðan því 0-0 í hálfleik.

 

Seinni hálfleikur var svo frekar bragðdaufur og spilamennskan í svipuðum gæðaflokki og í fyrri hálfleik. Þróttarar voru meira með boltann framan af hálfleiknum en náðu ekki oft að ógna marki ÍA. Skagamenn sköpuðu sér nokkur mjög álitleg marktækifæri en sem fyrri daginn náðist ekki að skora markið sem þurfti til að brjóta leikinn upp. Mjög umdeilt atvik kom þó um miðjan hálfleikinn þegar Garðar Gunnlaugsson komst í gegnum vörnina og skoraði mark sem dæmt var af vegna rangstöðu sem var mjög vafasamur dómur.

 

Allt stefndi svo í markalaust jafntefli en á síðustu mínútu leiksins komust Þróttarar yfir með ólöglegu marki þegar sóknarmaður þeirra lagði boltann fyrir sig með hendi áður en hann gaf boltann á samherja sem skoraði sigurmarkið. Skagamenn voru virkilega ósáttir með dómara leiksins í þessu atviki en dómnum var ekki haggað og leikurinn endaði því 0-1 fyrir Þrótt.
 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Ármann Smári, Gylfi Veigar og Arnór Snær. Á miðjunni voru Þórður Þorsteinn, Darren, Iain James, Hallur og Ásgeir. Í sókninni voru Tryggvi Hrafn og Garðar. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Eggert Kári, Steinar og Arnór.
 

Næsti leikur er svo gegn Breiðablik á Norðurálsvellinum á fimmtudaginn 9. júní kl. 19:15 í Borgunarbikarnum. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka