“Stefnir í mikinn baráttuleik gegn Leikni” sagði Gunnlaugur Jónsson

10.05 2015

„Þetta verður mikill baráttuleikur gegn Leikni í Breiðholtinu á mánudagskvöld og við þurfum að gíra okkur upp í það.“ sagði Gunnlaugur Jónsson  þjálfari Skagamanna.

„Leikurinn leggst vel í mig og við erum meðvitaðir um hvernig leik við erum að fara í.  Þetta verður fyrsti leikur Leiknis á heimavelli í efstu deild og þeir minntu heldur betur á sig í fyrstu umferðinni gegn Val, þar sem aðdáendur þeirra sýndu einnig frábæran stuðning.

Eins og áður sagði verður þetta mikill baráttuleikur og þarf hver leikmaður okkar að vera tilbúinn að vinna fyrir hvorn annan og liðið þarf að sýna mikla samtöðu, bæði í vörn og sókn.“ sagði Gunnlaugur.
„Ég býst við hörkuleik og vonast til þess að fá jafn góðan stuðning frá stuðningsmönnum Skagamanna og við fengum gegn Stjörnunni. „

Talandi um Stjörnuna. Hvað fannst Gunnlaugi um leikinn gegn Íslandsmeisturunum  í 1.umferðinni. ?

„Ég var heilt yfir sáttur við leik okkar. Ég hefði viljað hafa okkur grimmari í fyrri hálfleik. Við vorum ágætlega þéttir og fengum mörg upphlaup. Við hefðum getað ógnað meira með betri hlaupum við vítateiganna.
Við komum mun einbeittari til leiks í síðari hálfleik og sköpuðum okkur fín færi og á góðum degi hefðum við svo sannarlega nýtt eitthvað af þeim.  Það var meira sjálfstraust í liðinu í síðari hálfleiknum til að taka boltann niður og við fengum nokkrar fínar sóknir. 

Við sýndum það að við vildum jafna þennan leik og gerðum atlögu að marki þeirra til enda.

Árni Snær markvörður var frábær í leiknum og hélt okkur inn í honum með frábærri markvörslu þegar Ólafur Karl Finsen komst einn í gegn og svo að sjálfsögðu að verja vítaspyrnuna  frá sama leikmanni.
Ég var ánægður með innkomu varmannanna sem komu ákveðnir til leiks og hvernig þeir Þórður Þorsteinn og Albert uxu þegar á leikinn leið.  Það er því margt jákvætt sem við tökum úr leiknum í leikinn gegn Leikni.

Ég verð að lokum að minnast á frábæran stuðning sem við fengum frá áhorfendum í leiknum og sé vona svo sannarlega að það verði framhald á því.“ Sagði Gunnlaugur


 

Til baka