Stefnum á sigur í Keflavík

20.09 2015

Í dag fer fram 20. umferðin í Pepsi-deild karla með sex leikjum. Skagamenn munu fara suður með sjó og mæta þar botnliði Keflvíkinga en lið þeirra féll formlega um deild í síðustu umferð eftir tap gegn Val. Skagamenn mættu liði KR-inga á Norðurálsvellinum og lyktaði þeim leik með markalausu jafntefli.


Skagaliðið situr í 9. sæti deildarinnar með 20 stig og gæti liðið með sigri í dag styrkt stöðu sína allverulega í botnbaráttunni. Til þess að það gerist þá þarf Skagaliðið einfaldlega að hitta á mjög góðan dag. Þrátt fyrir dapurt gengi á tímabilinu þá hefur Keflavíkurliðið á að skipa fullt af flottum leikmönnum og verður því um verðugt verkefni að ræða á Nettó-vellinum í dag.


Við tókum Jón Þór Hauksson, aðstoðarþjálfara Skagaliðsins tali af þessu tilefni og byrjuðum á að spyrja hann út í jafnteflisleikinn gegn KR: „Mér fannst barátta og vinnusemi liðsins til fyrirmyndar í þeim leik. Við vorum í ákveðnum vandræðum fyrstu 10-15 mínúturnar en eftir það þá fannst mér leikurinn í jafnvægi þó KR væri ívið meira með boltann. Það vantaði nokkra lykilmenn í okkar lið í þessum leik en styrkur hópsins sýndi sig enn og aftur og þeir sem tóku þeirra sæti stóðu sig virkilega vel í þessum leik. Við hefðum að sjálfsögðu viljað vinna þennan leik, eins og alla aðra en tókum stigið.“


Framundan er mikilvægur leikur gegn liði Keflavíkur sem féll um deild í síðustu umferð. Búast menn ekki við hörkuleik engu að síður?
„Það er alveg klárt mál að það verður mjög erfitt að fara til Keflavíkur og ná í sigur. Keflavík er með gott lið, það sást best á leik þessara liða fyrr í sumar þar sem mér fannst þeir spila flottan fótbolta. Við erum vel stemmdir og ætlum okkur sigur í þessum leik.“ Sagði Jón Þór Hauksson aðstoðarþjálfari Skagaliðsins í stuttu samtali við vefsíðu félagsins.


Við hvetjum Skagamenn til þess að fjölmenna í Reykjanesbæ og styðja okkar drengi til sigurs í þessum mikilvæga leik sem hefst kl. 16.00.

Til baka