Stelpurnar komnar í Pepsi-deildina á nýjan leik

09.09 2015

Stelpurnar mættu Grindavík á Grindavíkurvelli í undanúrslitum 1. deildar kvenna í kvöld. Um seinni leik liðanna var að ræða en ÍA vann fyrri leikinn 3-0. Grindavík hóf leikinn af miklum krafti og það tók stelpurnar nokkurn tíma að komast í takt við leikinn auk þess sem sterkur vindur gerði þeim erfitt um vik. Grindavík skoraði tvö góð mörk snemma í leiknum og fékk nokkur ágæt færi sem vörn ÍA náði að bjarga á síðustu stundu. Stelpurnar fengu fá færi og staðan því 2-0 í hálfleik og leikurinn í járnum.

 

Í seinni hálfleik komust stelpurnar mun betur í takt við leikinn enda spiluðu þær undan mjög sterkum vindi. Þær sköpuðu sér nokkur ágæt færi en áttu í erfiðleikum með að klára sóknirnar. Grindavík náði sjaldan að ógna sterkri vörn ÍA en það var á 75. mínútu sem leiknum var í raun lokið en þá átti Megan Dunnigan gott skot af 25 metra færi sem söng í netinu. Grindavík náði varla að ógna marki ÍA eftir það og stelpurnar voru frekar nær því að jafna metin. Leikurinn fjaraði svo hægt og rólega út eftir það og leikurinn endaði 2-1. Samanlögð úrslit eru því 4-2 fyrir ÍA í þessum tveimur leikjum.

 

Stelpurnar okkar eru því komnar í Pepsi-deildina eftir árs fjarveru. Frábær árangur hjá þessum samheldna og góða hóp. Spilamennskan var ágæt framan af tímabili en þær toppuðu á réttum tíma, í síðustu leikjum Íslandsmótsins og í úrslitakeppninni. Liðið hefur spilað góðan fótbolta og uppskeran er eftir því. Nú er bara að taka titilinn í 1. deild kvenna en úrslitaleikurinn verður á laugardaginn kl. 14 við FH en staðsetning er óljós eins og er.

 

Til hamingju með árangurinn stelpur. Frábærar fyrirmyndir sem félagið má vera stolt af. 

Til baka