Stelpurnar komnar í undanúrslit í 1. deild kvenna

01.09 2015

Stelpurnar mættu Fjarðabyggð á Norðurálsvelli í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í kvöld. Um seinni leik liðanna var að ræða en fyrri leiknum lauk með 0-3 sigri ÍA. Bæði lið mættu til leiks af ákveðni og var töluverð barátta um alla bolta og nokkur færi sköpuðust sem hvorugt liðið náði að nýta sér. Eins og í fyrri leiknum var það stuttur leikkafli sem kláraði leikinn fyrir stelpurnar en undir lok hálfleiksins náðu Maren Leósdóttir og Eyrún Eiðsdóttir að skora góð mörk og staðan mjög góð.

 

Í seinni hálfleik héldu okkar stelpur áfram að sækja að Fjarðabyggð og skapa sér nokkur álitleg færi. Liðið spilaði góðan bolta og gestirnir áttu fá svör við leik ÍA. Undir lok leiksins voru úrslitin svo endanlega ljós þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði þriðja mark Skagamanna. Eftir þetta fjaraði leikurinn út og öruggur 3-0 heimasigur í höfn.

 

Stelpurnar eru þá komnar í undanúrslit 1. deildar og ef sigur vinnst í þeim leikjum eru þær aftur komnar í efstu deild þar sem liðið á heima. Fyrri leikurinn verður á sunnudaginn 6. september kl. 12 þar sem þær mæta annað hvort Augnablik eða Grindavík en það kemur í ljós á morgun.

Til baka