Stelpurnar náðu góðu jafntefli gegn Fylki í dag

28.05 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Fylki í dag á Fylkisvelli en þetta var fjórði leikur liðsins í Pepsi-deild kvenna. Fylkir byrjaði af meiri krafti og komst yfir snemma leiks. Eftir því sem leið á hálfleikinn komst ÍA betur inn í leikinn og skapaði sér álitleg færi sem ekki náðist að nýta. Fylkir sótti töluvert og náði að skapa sér hættuleg færi en þeir náðu ekki að bæta við fleiri mörkum. Staðan í hálfleik var því 1-0.

 

Í seinni hálfleik var svo mikil barátta í gangi og hvorugt liðið gaf neitt eftir. Stelpurnar börðust af krafti og áttu góðar sóknir en sem fyrr var vandamálið að nýta færin og koma boltanum í netið. Fylkir spilaði af skynsemi og beitti öflugum skyndisóknum sem strönduðu oftast á sterkri vörn ÍA. Útlit var fyrir fjórða tap liðsins í deildinni en í uppbótartíma náði Megan Dunnigan að koma boltanum í netið og jafna metin. Leikurinn endaði því með 1-1 jafntefli og kærkomið stig komið í hús hjá ÍA og fyrsta markið í deildinni í sumar.
 

Nú fer deildin í mánaðarfrí vegna EM í fótbolta og því var virkilega mikilvægt fyrir stelpurnar að fá stig í dag. Næsti leikur er því bikarleikur gegn Haukum sem fer fram sunnudaginn 12. júní kl. 14:00 að Ásvöllum. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka