Stelpurnar töpuðu fyrir Breiðablik í dag

24.09 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Breiðablik í dag í 17. umferð Pepsi-deildarinnar. Skagamenn mættu með bakið upp við vegg í þessum leik og sigur var það eina sem kom til greina til að forðast fall. Liðið spilaði sterkan varnarleik og gaf fá færi á sér.

 

Breiðablik sótti mikið allan hálfleikinn en náðu ekki að skapa sér markverð færi. Skagamenn áttu fáar sóknarlotur en fengu samt hálffæri sem ekki nýttust. Baráttan var hörð í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að geta tommu eftir. Staðan í hálfleik var 0-0 og allt opið ennþá í leiknum. 

 

Seinni hálfleikur hófst svo svipað og sá fyrri. ÍA varðist af hörku og beitti skyndisóknum en Breiðablik sótti af krafti en náði ekki að nýta þau færi sem liðið fékk. Skagamenn fengu svo mjög álitleg færi til að skora í hálfleiknum en færin misfórust sem hefur gerst of oft í sumar.

 

Breiðablik sigldi svo fram úr undir lokin og skoraði tvö mörk á síðustu mínútum leiksins. Stelpurnar gáfu allt í leikinn á erfiðum útivelli og stóðu sig vel en niðurstaðan var 2-0 tap og fall í 1. deild staðreynd. Þó var jákvætt að sjá að liðið spilaði vel sem ein heild og viðveran í 1. deild verður ekki lengi ef ÍA heldur áfram að spila svona.


Síðasti leikur tímabilsins er gegn KR á Norðurálsvelli sem fer fram föstudaginn 30. september kl.16:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka