Stelpurnar töpuðu fyrir Val í baráttuleik

11.09 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Val í dag í 16. umferð Pepsi-deildarinnar. Valur kom af miklum krafti inn í leikinn og strax á áttundu mínútu leiksins kom fyrsta mark leiksins eftir góða sókn frá Val. Heimamenn héldu svo áfram að sækja og á 13. mínútu bættu þeir sínu öðru mark við og staða ÍA orðin virkilega erfið eftir skelfilegar upphafsmínútur.


Skagamenn komust þó betur inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn og ógnuðu marki Vals með ágætum sóknarlotum sem ekki tókst að nýta. Valur átti nokkrar góðar sóknir en bætti ekki við fleiri mörkum í hálfleiknum. Staðan í hálfleik var því 2-0 fyrir heimamenn.

 

Stelpurnar komu svo öflugar til leiks í seinni hálfleik og ætluðu ekki að gefa neitt eftir. Mikil barátta var í leiknum og greinilegt var að ÍA ætlaði ekki að játa sig sigrað. Á 70. mínútu kom svo mark frá Skagamönnum þegar Jaclyn Pourcel átti aukaspyrnu inn í vítateig Vals þar sem Hrefna Þuríður Leifsdóttir náði til boltans og kom honum í netið.

 

Skagamenn reyndu svo að jafna metin og áttu nokkrar góðar sóknir. Oft vantaði herslumuninn en það var kannski lýsandi fyrir gengið í sumar að ekki náðist að klára færin þrátt fyrir góða spilamennsku. Valsmenn sóttu lítið í seinni hálfleik en fengu nokkur álitleg færi sem þeir nýttu ekki. Leikurinn endaði því með sigri Vals 2-1.

 

Næsti leikur er gegn Breiðablik á Kópavogsvelli sem fer fram laugardaginn 24. september  kl.16:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka