Stelpurnar töpuðu gegn FH í dag

14.05 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði í dag við FH á Norðurálsvellinum en þetta var fyrsti leikur liðsins í Íslandsmótinu. Töluvert jafnræði var framan af í fyrri hálfleik og fengu bæði lið nokkur ágæt hálffæri sem ekki tókst að nýta. Stelpurnar voru á köflum mjög nálægt því að komast yfir en boltinn vildi ekki fara í netið. Staðan var því markalaus í hálfleik.
 

Í seinni hálfleik var FH svo sterkari aðilinn framan af. Gestirnir sköpuðu sér góð færi og skoruðu mark eftir varnarmistök eftir tíu mínútna leik. Eftir því sem leið á hálfleikinn komust stelpurnar svo meira inn í leikinn og sóttu af krafti. ÍA fékk nokkur góð færi til að jafna metin, sérstaklega á lokamínútunum, en þrátt fyrir góðar tilraunir tókst það því miður ekki. Leikurinn endaði því með 0-1 sigri FH þrátt fyrir ágætan leik stelpnanna í dag. Sérstaklega ber að þakka stuðningsmönnum fyrir góðan stuðning í leiknum en vel á annað hundrað manns mættu og studdu stelpurnar okkar.

 

Næsti leikur er svo gegn Þór/KA miðvikudaginn 18. maí á Þórsvelli kl. 18. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka