Stelpurnar töpuðu gegn Fylki í baráttuleik

25.08 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Fylki í kvöld í 13. umferð Pepsi-deildarinnar. Fylkir byrjaði af krafti og skapaði sér álitleg færi sem nýttust ekki. Þeir voru sterkari aðilinn framan af en Skagamenn komu sterkari inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn. ÍA spilaði sterkan varnarleik og byggði á góðum skyndisóknum.

 

Liðið fékk nokkur ágæt færi í hálfleiknum sem ekki náðist að nýta. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var markalaus.

 

Í seinni hálfleik var svo áfram mikil barátta í gangi þar sem Skagamenn sóttu töluvert og sköpuðu sér mjög góð marktækifæri en á einhvern ótrúlegan hátt náðist ekki að klára færin. Megan Dunnigan skoraði gott mark á 49. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu, sem þótti mjög vafasamur dómur. Fylkismenn áttu nokkrar góðir sóknir í hálfleiknum og úr einni slíkri skoruðu þeir gott mark af löngu færi á 77. mínútu.

 

Stelpurnar börðust af krafti og áttu góðar sóknir til að jafna metin en sem fyrr var vandamálið að nýta færin og koma boltanum í netið. Fylkir spilaði svo af varkárni og beitti skyndisóknum sem strönduðu á sterkri vörn ÍA. Þrátt fyrir ágætar sóknarlotur Skagamanna undir lokin náðist ekki að jafna metin. Leikurinn endaði því 0-1 fyrir Fylki.

 

Næsti leikur er gegn ÍBV á Norðurálsvellinum sem fer fram miðvikudaginn 31. ágúst kl.17:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka