Stelpurnar töpuðu gegn Stjörnunni í kvöld

06.09 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Stjörnuna í kvöld í 15. umferð Pepsi-deildarinnar. Stjarnan byrjaði af krafti og skapaði sér ágæt færi sem nýttust ekki. Þeir voru sterkari aðilinn framan af en Skagamenn komu sterkari inn í leikinn eftir því sem leið á hálfleikinn.

 

Á 21. mínútu komst ÍA yfir þegar Megan Dunnigan skoraði með góðu skoti eftir frábæran undirbúning Cathrine Dyngvold. Baráttan var í fyrirrúmi í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir ÍA og var virkilega gaman að fylgjast með Skagamönnum spila af krafti í fyrri hálfleik. 


Seinni hálfleikur hófst svo illa því Stjarnan jafnaði strax á annarri mínútu hálfleiksins. Stelpurnar börðust þó áfram af krafti og áttu góðar sóknir til að komast aftur yfir en ekki náðist að nýta færin. Stjörmumenn komust svo yfir um miðjan hálfleikinn eftir góða sókn.

 

Skagamenn reyndu að jafna metin en Stjarnan hélt áfram að beita öflugum sóknarlotum. ÍA átti nokkrar ágætar sóknir en náði ekki að brjóta vörn gestanna niður. Stjarnan náði svo að klára leikinn með því að skora sitt þriðja mark á lokamínútu leiksins. Leikurinn endaði því 1-3 fyrir Stjörnuna.

 

Næsti leikur er gegn Val á Valsvelli sem fer fram laugardaginn 10. september  kl.14:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka