Stelpurnar töpuðu gegn Val í baráttuleik

08.07 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við Val í kvöld í sjöundu umferð Pepsi-deildarinnar. Valur byrjaði af nokkrum krafti og skoraði gott mark strax snemma leiks. Gestirnir fengu svo ágæt færi sem þeir náðu ekki að notfæra sér. Eftir því sem leið á hálfleikinn komst ÍA betur inn í leikinn og skapaði sér álitleg færi sem ekki náðist að nýta.Töluverð barátta var í leiknum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Staðan í hálfleik var þannig 0-1.
 

Í seinni hálfleik var svo áfram mikil barátta í gangi og bæði lið sóttu nokkuð en herslumuninn vantaði þegar kom að vítateig liðanna. Stelpurnar börðust af krafti og áttu góðar sóknir en sem fyrr var vandamálið að nýta færin og koma boltanum í netið. Valur spilaði af varkárni og beittu öflugum skyndisóknum sem strönduðu oftast á sterkri vörn ÍA. Þrátt fyrir ágætar sóknarlotur Skagamanna undir lokin náðist ekki að jafna metin. Leikurinn endaði því 0-1 fyrir Val.
 

Næsti leikur er gegn Breiðablik á Norðurálsvellinum sem fer fram miðvikudaginn 13. júlí kl 19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka