Stelpurnar unnu frábæran sigur á KR

19.07 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði við KR í kvöld í níundu umferð Pepsi-deildarinnar. Stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og strax á sjöttu mínútu kom langþráð mark í deildinni þegar Jaclyn Pourcel átti sendingu inn í vítateig KR þar sem Megan Dunnigan fékk boltann og skoraði með góðu skoti. ÍA hélt svo áfram að sækja og skapaði sér mörg góð færi sem ekki nýttust. KR komst svo betur inn í leikinn og jafnræði var með liðunum seinni hluta hálfleiksins án þess að heimamenn sköpuðu sér markverð færi. Staðan í hálfleik var því 0-1 fyrir ÍA.

 

Í seinni hálfleik var svo áfram mikil barátta í gangi þar sem Skagamenn sóttu nokkuð án þess að skapa umtalsverð færi en KR átti í mesta basli með að skapa sér álitleg færi gegn sterkri vörn ÍA. Stelpurnar ætluðu sér sigur í kvöld og á 79. mínútu tryggðu þær sér sigurinn þegar Aníta Ósk Ágústsdóttir átti sendingu fram völlinn þar sem Heiður Heimisdóttir skallaði boltann áfram til Megan Dunnigan. Megan var ekki í neinum vandræðum með að skora í þaknetið og bæta við sínu öðru marki. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og leiknum lauk með 0-2 sigri ÍA.

 

Merkileg staðreynd er að þetta er fyrsti sigurleikur ÍA í efstu deild kvenna síðan 2000. Síðustu tvö skipti sem liðið hefur spilað í efstu deild, 2005 og 2014, hefur eitt stig verið uppskeran svo þetta er langþráður áfangi.
 

Næsti leikur er gegn FH á Kaplakrikavellinum sem fer fram þriðjudaginn 26. júlí kl.19:15. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja við bakið á stelpunum.

Til baka