Stelpurnar unnu sigur á KR í Lengjubikarnum

30.04 2016

Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld við KR í Lengjubikarnum í Egilshöll. Þetta var fimmti leikur ÍA í B riðli mótsins. Töluvert jafnræði var framan af í fyrri hálfleik og fengu bæði lið nokkur ágæt hálffæri sem ekki tókst að nýta. Stelpurnar voru á köflum mjög nálægt því að komast yfir en boltinn vildi ekki fara í netið. Staðan var því markalaus í hálfleik.
 

Í seinni hálfleik var ÍA svo sterkari aðilinn. Stelpurnar komu ákveðnar til leiks og sóttu af krafti. Það skilaði sér loks um miðjan hálfleikinn þegar Gréta Stefánsdóttir skoraði með góðu skoti. KR fékk sín tækifæri í leiknum til að jafna metin en vörnin stóð það af sér. Skagastelpur fengu svo fleiri færi til að bæta við mörkum en þau nýttust ekki. Leikurinn endaði því með 0-1 sigri ÍA og liðið átti góðan leik í kvöld.

 

ÍA endaði því með 10 stig í Lengjubikarnum og lenti í öðru sæti í riðlinum, á eftir Val sem var með 15 stig.

Til baka