Tap gegn Breiðablik í kvöld

17.08 2015

Skagamenn heimsóttu Breiðablik í kvöld á Kópavogsvöllinn og endaði leikurinn með 3-1 sigri heimamanna. Leikurinn hófst af krafti af hálfu blika og áttu þeir fjölda færa í fyrri hálfleik sem þeir náðu ekki að nýta sér. ÍA fékk fá færi í hálfleiknum og átti liðið í vök að verjast á löngum köflum. Menn náðu þó að standa fyrir sínu í varnarleiknum og staðan var markalaus í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik héldu blikar áfram að sækja af krafti og þeir komust yfir mjög snemma með góðu marki. Eftir þetta fóru okkar menn loks að sækja og skapa sér álitleg marktækifæri. Arnar Már Guðjónsson átti góðan skalla í þverslána eftir innkast og hægt og bítandi komu Skagamenn inn í leikinn. Á 83. mínútu kom jöfnunarmarkið þegar Albert Hafsteinsson átti frábært skot af löngu færi sem söng í netinu, staðan orðin 1-1 og allt opið. Skömmu síðar átti Arnar Már Guðjónsson gott skot sem markvörður Breiðabliks rétt náði að verja. Á 88. mínútu áttu okkar menn sókn þegar brotið var á okkar manni en ekkert var dæmt. Blikar fóru í sókn og skoruðu mark og komust þannig yfir. Okkar menn gerðu allt til þess að reyna að jafna metin en blikar skoruðu svo sitt þriðja mark úr skyndisókn á lokamínútunni.
 

Leikurinn endaði því með 3-1 sigri Breiðablik þar sem þeir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og hluta af seinni hálfleik en þegar leið á hann komu Skagamenn af krafti inn í leikinn og hefðu verðskuldað stig í leiknum. Staðan á botninum þéttist umtalsvert við úrslitin í þessari umferð og Fjölnismenn koma í heimsókn mánudaginn 24. ágúst. Þar kemur ekkert annað til greina en þrjú stig.

Til baka