Tap gegn Fjölni í Borgunarbikarnum

04.06 2015

Skaginn mætti í gærkvöld liði Fjölnis í Borgunarbikarnum og mátti sætta sig við 0-3 tap á Norðurálsvellinum. Fjölnisliðið byrjaði leikinn af krafti og leiddi sanngjarnt 0-2 í hálfleik. Leikur Skagamanna var slakur í fyrri hálfleik og gekk liðinu til að mynda afleitlega að skapa sér markverðar sóknir. Eina marktilraun Skagamanna í hálfleiknum af einhverju viti kom eftir 37. mín leik þegar Þórður Þorsteinn átti skottilraun af löngu færi sem markvörður Fjölnismanna varði örugglega.


Skagaliðið kom grimmara til leiks í síðari hálfleik og ætlaði sér greinilega að svara fyrir frammistöðuna í hálfleiknum á undan. Meira jafnræði var með liðunum seinni hálfleiknum en Skagaliðinu gekk áfram ílla að skapa sér teljandi markfæri. Fjölnismenn voru aftur óheppnir að bæta ekki í forystuna í byrjun hálfleiksins og áttu m.a. marktilraunir sem höfnuðu tréverkinu á marki Skagamanna.


Fjölnismenn kláruðu svo leikinn endanlega á 83 mín þegar Aron Sigurðarson skoraði örugglega fram hjá Páli Gísla í markinu. Skagamenn fengu færi til þess að minnka muninn í uppbótartíma en þeim Arsenij Buinicikj og Ásgeiri Marteinssyni voru mislagðar fætur í upplögðum færum.


Þar við sat og niðurstaðan afar sanngjarn 0-3 sigur gestanna úr Grafarvogi. Það verður að viðurkennast að leikur Skagamanna í gær var slakur frá fyrstu mínútu. Liðið sýndi smá baráttuanda í seinni hálfleiknum en þá var það einfaldlega orðið of seint. Það var kannski einkennandi fyrir leikinn að Páll Gísli markvörður ÍA var af flestum fjölmiðlum álitinn besti leikmaður Skagaliðsins í leiknum. 

Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn liði Fylkis í Pepsideildinni á sunnudaginn kemur og þá verða allir einfaldlega að leggjast á eitt, bæði leikmenn, þjálfarar sem og stuðningsmenn og um að koma liðinu aftur á skrið í deild þeirra bestu.

Til baka