Tap gegn Haukum í síðasta heimaleiknum

13.09 2014

Næst síðasta umferðin í 1. deild karla fór fram í dag en þá mættu Skagamenn liði Hauka á Norðurálsvellinum. Skagaliðið var þegar búið að tryggja veru sína í efstu deild að ári en þeir gulklæddu gátu með sigri í leiknum í dag komið sér í efsta sæti deildarinnar ef úrslit úr leik Leiknis gegn HK yrðu þeim hagstæð.

 

Skagaliðið var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en gekk þó erfiðlega að skapa sér einhver teljandi dauðafæri. Helst bar þar að nefna að Jón Vilhelm Ákason átti fína marktilraun í upphafi leiks sem endaði í þverslá á marki gestanna. Stuttu síðar átti Garðar Gunnlaugssson fínt skot með vinstri fæti sem markvörður Hauka varði og munaði engu að Hjörtur Hjartarson næði frákastinu og kæmi Skagaliðinu yfir í leiknum. Fátt annað markvert gerðist í fyrri hálfleiknum og þar við sát í hálfleik og staðan markalaus.

 

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn á því að sækja hart að marki gestanna og fengu tvær fínar tilraunir með skömmu millibili. Fyrst átti Andri Adolphsson fína tilraun á markteig sem markvörður Hauka gerði vel í að verja en stuttu síðar átti Garðar fínt skot sem var varið og Hallur Flosa hirti frákastið og tók skot á markið sem bjargað var af marklínu. Það voru síðan gestirnir úr Hafnarfirði sem náðu forystunni á 50. mín leiksins en það skoraði Hilmar Trausti Arnarson.

 

Lið gestanna datt aftar á völlinn eftir þetta og Skagaliðið reyndi hvað það gat að jafna metin án árangurs. Haukarnir freistuðu þess að halda markinu hreinu og beita skyndisóknum sem skilaði að lokum öðru marki undir lok leiksins með laglegu skoti í stöngina og inn. Þar við sat og niðurstaðan svekkjandi 0-2 tap gegn Haukum.

 

Það verður að viðurkennast að Skagaliðið náði sér aldrei á strik í leiknum í dag en liðinu varð af dýrmætu tækifæri til þess að komast í toppsæti deildarinnar þar sem leikur HK og Leiknis endaði með jafntefli. Sigur Hauka-drengja á Skagaliðinu var sanngjarn og það leit út fyrir að okkar drengir væru saddir eftir að hafa náð settu marki í síðustu umferð. Spilamennskan í leiknum í dag olli vonbrigðum en hinsvegar er einn leikur eftir í mótinu en um næstkomandi helgi þá mæta Skagamenn liði KA-manna norðan heiða en þar eiga okkar drengir harma að hefna eftir 2-4 tap í fyrri umferðinni.

Til baka