Tap gegn Stjörnunni í fyrsta leik

03.05 2015

Skagamenn hófu í dag leik í Pepsi-deild karla með því að mæta Íslandsmeisturunum í liði Stjörnunnar á Norðurálsvellinum. Það voru fínar aðstæður til knattspyrnuiðkunnar á Akranesi í dag þó bætt hafi örlítið í vind þegar á leikinn leið.


Stjörnuliðið byrjaði leikinn betur og var meira með boltann í fyrri hálfleik án þess þó að skapa sér einhver galopin marktækifæri. Gestirnir náðu svo forystunni um miðbik hálfleiksins með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Þar við sat í hálfleik og staðan 0-1 fyrir þá bláklæddu.


Skagaliðið mætti gírað til leiks í seinni hálfleik og betur gekk að byggja upp markverðar sóknir. Jón Vilhelm Ákason fékk ákjósanlegt tækifæri til þess að jafna leikinn þegar skalli hans af markteig fór rétt yfir markið á 55 mín leiksins. Gestirnir úr Garðabænum fengu í kjölfarið gott færi þegar Ólafur Karl slapp í gegn en Árni Snær sá við honum í markinu. Skagaliðið sótti nokkuð að marki þeirra bláklæddu eftir þetta og áttu Garðar, Jón Vilhelm, Arnar Már og Marko allir fínar marktilraunir en inn vildi botinn ekki.


Stjarnan hefði getað bætt við marki stuttu fyrir leikslok þegar þeir fengu vítaspyrnu en Árni Snær Ólafsson gerði vel í að verja í marki heimamanna.
Þar við sat og niðurstaðan 0-1 tap gegn Stjörnumönnum. Eftir fremur rólegan fyrri hálfleik þá átti Skagaliðið aftur á móti fínan seinni hálfleik og hefði auðveldlega getað jafnað leikinn.


En það þýðir ekki að staldra lengur við þennan leik, liðið átti marka fína kafla í kvöld gegn sterku Stjörnuliði og nú er bara að mæta grimmir til leiks í næstu umferð gegn Leiknis-mönnum.

Til baka