Tap gegn Valsmönnum í kvöld

29.06 2015

Skagamenn mættu liði Valsmanna í kvöld á Vodafonevellinum og endaði leikurinn með sigri Valsmanna 4-2. Valsarar komu öflugri inn í þennan leik og átti skagavörnin oft í vandræðum að eiga við spræka heimamenn. Valur komst svo yfir um miðjan fyrri hálfleik en skömmu síðar átti Ólafur Valur Valdimarsson frábært skot í þverslánna. Skömmu síðar bæta Valsmenn öðru marki sínu við. Á 37. mínútu skoraði Jón Vilhelm Ákason svo gott mark eftir frábæra sending frá Ásgeiri Marteinssyni og Skagamenn aftur komnir inn í leikinn. En rétt fyrir hálfleik skora Valsmenn sitt þriðja mark og leiddu 3-1 í hálfleik.

Okkar menn komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og náðu að skapa sér ágæt færi. Um miðjan hálfleikinn skoraði svo Arsenij Buinickij fallegt mark eftir stungusendingu frá Marki Andelkovic. Staðan orðin 3-2 og Skagamenn ógnuðu mun meira og áttu góð færi næstu mínútur. Bæði Jón Vilhelm Ákason og Arsenij Buinickij áttu góð skot sem fóru rétt yfir markið. Valsmenn skoruðu svo sitt fjórða mark undir lok leiksins og okkar menn fengu dauðafæri til að hleypa lífi í leikinn síðustu mínúturnar en heimamenn náðu að bjarga á marklínu.

Skagamenn töpuðu því 4-2 sigur í leik þar sem Valur var sterkari aðilinn í leiknum en við fengum samt fjölda færa til að skora fleiri mörk. Sóknarleikurinn var ágætur en huga þarf betur að varnarleiknum fyrir næsta leik
Næsti leikur er svo gríðarlega mikilvægur leikur gegn Eyjamönnum sem eru stigi fyrir neðan okkur í fallbaráttunni. Leikurinn fer fram eftir hálfan mánuð, sunnudaginn 12. Júlí kl. 17:00 á Norðurálsvelli.

Til baka