Tap gegn Víking Ólafsvík í kvöld

16.05 2016

Meistaraflokkur karla spilaði í kvöld við Víkinga á Ólafsvíkurvelli. Víkingar byrjuðu af krafti og skoruðu eftir sex mínútna leik. Skagamenn komust svo í takt við leikinn og sköpuðu sér góð marktækifæri sem ekki náðist að nýta. Víkingar áttu einnig góðar sóknir og þeir skoruðu úr einni slíkri skömmu fyrir hálfleik. Staðan var því 2-0 fyrir Víking í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik byrjuðu okkar menn af krafti staðráðnir í að komast inn í leikinn aftur. Eftir örfáar mínútur var brotið á Jóni Vilhelm Ákasyni innan vítateigs Víkings og vítaspyrna dæmd. Hana tók Garðar Gunnlaugsson en markvörður Víkinga náði að verja. Bæði lið sóttu svo af miklum móð og sköpuðu sér mörg góð færi en boltinn vildi ekki inn. ÍA fékk sérstaklega nokkur dauðafæri en boltinn vildi ekki inn í dag. Víkingar kláruðu aftur á móti leikinn með marki undir lokin. Leikurinn endaði því með 3-0 sigri Víkings. 

 

Liðsskipan var þannig að Árni Snær var í marki. Í vörninni voru Aron Ingi, Ármann Smári, Gylfi Veigar og Þórður Þorsteinn. Á miðjunni voru Albert, Arnór Snær og Martin. Í sókninni voru Garðar, Eggert Kári og Jón Vilhelm. Varamenn sem spiluðu leikinn voru Ólafur Valur, Ásgeir Marteinsson og Iain James Williamson sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir íA.
 

Næsti leikur er svo gegn Fylki á Norðurálsvelli laugardaginn 21. maí kl. 16:00. Við hvetjum Skagamenn til að mæta og styðja okkar menn.

Til baka