Tap gegn Víkingi Ó í ótrúlegum leik

23.05 2014

Skagamenn mættu í dag liði Víkings frá Ólafsvík í 1. deild karla og máttu sætta sig við 3-2 tap í Vesturlandsslagnum.  Bæði lið voru um miðja deild eftir að hafa byrjað tímabilið á einum sigurleik og einum tapleik.

Byrjunarlið Skagamanna var þannig skipað í leiknum: Árni Snær Ólafsson, Sindri Snæfells Kristinsson, Ármann Smári Björnsson, Arnór Snær Guðmundsson, Darren Lough, Jón Vilhelm Ákason, Hallur Flosason, Eggert Kári Karlsson, Ólafur Valur Valdimarsson, Andri Adolphsson og Garðar Gunnlaugsson.

Aðstæður til að spila fótbolta voru erfiðar þar sem strekkingsvindur var eftir endilöngum vellinum. Fyrri hálfleikurinn var frekar tíðindalítill og fátt markvert gerðist fyrr en undir lok hálfleiksins þegar Skagamenn náðu 1-0 forystu þegar Darren Lough tók aukaspyrnu af 45 metra færi sem endaði ímarkinu. Þar hafði vindurinn töluvert að segja um stefnu boltans. Staðan í hálfleik var því 1-0.

Skagamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og á fyrstu mínútu skoraði Jón Vilhelm Ákason með góðu skoti eftir undirbúning frá Andra Adolphssyni. Bæði lið fengu tækifæri til að skora fleiri mörk en Víkingar minnkuðu muninn með góðu skoti á 72. mínútu. Skömmu áður hafði Andri Adolphsson komist einn á móti markverði og getað klárað leikinn en hann skaut framhjá markinu.

Undir lok leiksins fékk Garðar Gunnlaugsson svo úrvalsfæri til að koma ÍA í 3-1 en hann skaut boltanum yfir markið í góðu færi. Skömmu síðar var svo dæmd vítaspyrna á Darren Lough fyrir að handleika boltann inni í vítateig. Skagamenn mótmæltu hástöfum en Víkingar jöfnuðu af öryggi úr vítaspyrnunni.

Í uppbótartíma skoruðu svo Víkingar sigurmark úr hornspyrnu sem Skagamenn vildu meina að hefði verið kolólöglegt þar sem leikmaður þeirra handlék boltann áður en hann skoraði. Þeir mótmæltu lengi við dómara leiksins sem var ekki snúið og markið stóð.

Fleiri urðu mörkin ekki og gríðarlega svekkjandi tap 2-3 fyrir Víking frá Ólafsvík í leik þar sem Skagamenn fengu ákjósanleg tækifæri til að klára leikinn.Næsti leikur Skagamanna verður á Valbjarnarvelli í Reykjavík sunnudaginn 1. júní kl. 14 gegn liði Þróttar. Við hvetjum alla Skagamenn til að þjappa sér að baki liðinu þrátt fyrir tap í síðustu leikjum og styðja strákana okkar.  Þeir þurfa á okkar stuðningi að halda núna þegar á móti blæs.

Til baka