Tap í Grafarvoginum

31.05 2015

Skagamenn mættu í kvöld liði Fjölnis í Grafarvoginum og lyktaði leiknum með 2-0 sigri heimamanna.

Töluvert jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik sem var þó mjög bragðdaufur en lítið var um opin marktækifæri. Fjölnismenn komust þó yfir á 16. mínútu eftir hornspyrnu og þvögu í vítateignum. Varnarleikurinn var heilt yfir ágætur og vel gekk að halda aftur af sóknarmönnum heimamanna. Sem fyrr var vandamál að skapa sér góð marktækifæri og því var Fjölnir einu marki yfir í hálfleik.

Fjölnismenn byrjuðu svo seinni hálfleikinn betur en Skagamenn fengu gott tækifæri til að jafna metin þegar Jón Vilhelm Ákason átti skalla að marki heimamanna en markvörður þeirra náði að verja glæsilega í horn. Á 63. mínútu skoraði Fjölnir eftir góða skyndisókn og eftir það var orðið erfitt fyrir okkar menn að komast í takt við leikinn. Nokkur hálffæri sköpuðust og á síðustu mínútunni átti Eggert Kári Karlsson frábært skot sem markvörður Fjölnis varði glæsilega.

Rétt á eftir var flautað til leiksloka og heimamenn fögnuðu 2-0 sigri á Skagamönnum. Þetta var þriðji tapleikur strákanna í röð en spilamennskan var ágæt á köflum og við fengum okkar færi sem ekki náðist að nýta. Við mætum Fjölni aftur strax á miðvikudaginn í bikarnum og þá er gott tækifæri að ná fram hefndum og reyna að ná fram góðu bikarævintýri í sumar.

Til baka