Þórður Þorsteinn valinn í landsliðið

24.08 2016

Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur verið valinn í U21 árs landsliðshópinn sem fer til Norður-Írlands og mætir heimamönnum þar 2. september næstkomandi og heldur síðan til Frakklands í framhaldinu og mætir Frökkum þar 6. september.

 

Leikirnir eru liður í undankeppninni fyrir Evrópukeppni U21 árs landsliða, en lokakeppnin fer fram í Póllandi 2017.  Fyrir leikina er Ísland í 2. sæti síns riðils en Norður-Írar í 6. og síðasta sæti en Frakkar á toppnum. Íslendingar eiga þó leik til góða á Frakkana. Íslenska liðið er því í góðri stöðu en liðið leikur svo síðustu tvo leiki sína í riðlinum hér á Íslandi í október. Efsta lið hvers riðils kemst beint í lokakeppnina en 4 bestu liðin í 2. sæti fara í umspil og tvö þeirra geta svo einnig tryggt sér þátttökurétt.

 

Þórður Þorsteinn hefur spilað stórt hlutverk hjá meistaraflokki karla í Pepsildeildinni í sumar, spilað 13 leiki og skorað tvö mörk, en þau komu í síðustu tveimur heimaleikjum. Hann hefur ekki áður verið valinn í landsliðshóp en er vel að tækifærinu kominn nú.

 

Við óskum Þórði til hamingju með valið og treystum því að hann muni nýta tækifærið vel og vera sjálfum sér og félaginu til mikils sóma.

Til baka