Þórður valinn í landsliðið

28.09 2016

Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur verið valinn í lokahóp U21 árs landsliðsins sem tekur á móti Skotum á Víkingsvelli 5. október næstkomandi og Úkraínumönnum á Laugardalsvelli 11. október næstkomandi.

 

Um er að ræða síðustu tvo leiki liðsins í undankeppninni fyrir EM2017 sem fer fram í Póllandi í júní 2017. Fyrir leikinn er Ísland í 3. sæti riðilsins á eftir Makedóníu og Frakklandi en á þó leik til góða á liðin fyrir ofan sig. Íslenska liðið á því enn ágæta möguleika á að komast inn í lokamótið náiþeir hagstæðum úrslitum í leikjum sínum. Sigurvegarar í hverjum riðli fara beint inn í lokakeppninna en þau fjögur lið sem hafa bestan árangur í öðru sæti komast í í umspil um tvö laus sæti. Fyrir áhugasama má benda á að hægt er að kaupa miða á leikina á http://www.midi.is

 

Þórður Þorsteinn er einn af þessum ungu Skagamönnum sem hefur verið að stimpla sig inn í liðið hjá meistaraflokki karla í sumar, hefur tekið þátt í alls 19 leikjum og skorað í þeim 3 mörk. Hann var áður valinn í U21 árs hópinn gegn Norður-Írlandi og Frakklandi en kom ekki við sögu í þeim leikjum.

 

Við óskum Þórði til hamingju með valið og vonumst til að sjá hann fá tækifæri til að sýna hvað í honum býr inni á vellinum að þessu sinni.

Til baka