Útileikir hjá báðum meistaraflokkunum um helgina

08.09 2016

Báðir meistaraflokkarnir eiga leiki á útivelli núna um helgina en þó er ekki langt að fara svo það er alveg óþarfi að missa af þessum leikjum þess vegna.

 

Meistaraflokkur kvenna heimsækir Val á Valsvöll á laugardaginn, 10. september, kl. 14:00. Valur hefur haldið sig í námunda við toppslaginn í sumar en eins og við höfum margoft sagt þá er alltaf allt undir hjá Skagastelpum þessa dagana. Í leik liðanna hér á Norðurálsvellinum fyrr í sumar vann Valur eins marks sigur, komust yfir snemma leiks og þar við sat, þrátt fyrir góða spretti hjá okkar stelpum. En þetta er annað, nýr leikur og nýtt tækifæri. Myndin með fréttinni var tekin í leiknum í fyrri umferðinni.

 

Meistaraflokkur karla á svo leið á Þróttarvöll á sunnudagskvöldið, 11. september, kl. 19:15 og mætir þar Þrótti, að sjálfsögðu. Gengi liðanna hefur verið nokkuð ólíkt í sumar en okkar strákar eru fyrir leikinn í 5. sæti með 28 stig en Þróttur í neðsta sæti deildarinnar með 9 stig. Skagamenn eiga þó harma að hefna eftir óvænt 0-1 tap gegn sama andstæðingi hér á Norðurálsvellinum í byrjun júní. Liðin í 2. -6. sæti eru í mjög þéttum pakka, einn sigur getur lyft liðinu ofar í töfluna en eitt tap verið dýrkeypt.

 

Fjölmennum á völlinn og hvetjum okkar lið, bæði stelpurnar og strákana!

 

Áfram ÍA

Til baka