“Við ætlum okkur þessi þrjú stig sem eru í boði fyrir vestan”

29.07 2014

Segir Jón Þór Hauksson yfirþjálfari og aðstoðarþjálfari M.fl. karla.

 

Heil umferð fer fram í 1. deild karla miðvikudaginn 30. júlí en þá mæta Skagamenn Víkingum frá Ólafsvík.  Leikurinn fer fram í Ólafsvík og er sannkallaður vesturlandsslagur.  Í tilefni þess heyrðum við í Jón Þór yfirþjálfara og aðstoðarþjálfara Meistaraflokks karla.

 

Eftri tvö svekkjandi töp gegn KA og Selfossi þá náðu Skagamenn sér á strik aftur gegn Grindvíkingum s.l. fimmtudag. Að margra mati var þetta einn besti leikur Skagamanna í sumar. Ert þú sammála því.?

 

Já, engin spurning að þetta var einn okkar besti leikur í sumar. Grindvíkingar eru með öflugt lið og slakt gengi þeirra hefur komið mér á óvart í sumar. Þeir höfðu verið að ná sér á strik í síðustu leikjum og því ljóst að við þyrftum toppleik til að vinna þá eins og við gerðum. Sigurinn var okkur gríðarlega mikilvægur og ekki síst að halda markinu hreinu. Það var mjög gaman að sjá hversu samstilltir við vorum og lögðum mikið í þennan leik, við fórum í einvígin til að vinna þau og það er margt sem við getum tekið með okkur í næsta leik. Við sundurspiluðum þá á köflum og mér fannst liðið sýna virkilegan styrk að spila svona vel eftir heldur slakt gengi.

 

Nú er stórleikur á miðvikudagskvöldið gegn Víkingum í Ólafsvík. Hvernig leggst sá leikur í þig? Telur þú að úrslitin í þeim leik geti haft veruleg áhrif á framgang Skagamanna í sumar? Eða er þetta bara einn leikur að takmarkinu að komast upp í efstu deild?

 

Það eru þrjú stig í boði eins og fyrir alla aðra leiki þannig að ég lít ekki á þennan leik sem neinn úrslitaleik með framhaldið í huga. Við ætlum okkur þessi þrjú stig sem eru í boði fyrir vestan og erum ekkert að velta öðru fyrir okkur. Leikurinn leggst vel í mig. Víkingar eru erfiðir við að eiga og hafa auk þess styrkt sig verulega núna í glugganum þannig að við þurfum að eiga toppleik til að ná sigri þar.

 

Nú hefur Andri Júlíusson bæst í hóp Skagamanna a.m.k. tímabundið. Telur þú að hann gæti orðið okkur góður liðsstyrkur fyrir komandi átök?

 

Já, Andri hefur verið hér í sumarfríi ásamt fjölskyldu sinni og þau eignuðust strák hér. Andri hefur æft með okkur frá því hann kom í byrjun júlí og samþykkti að vera okkur innan handar ef á þyrfti að halda sem er frábært fyrir okkur. Það verður svo að koma í ljós hvernig málin þróast með hann. Ég tel hann hafa eiginleika sem geta nýst okkur, engin spurning.

Til baka